Þjónusta og samstarf

Miðlunarstarfsemi Hagstofu Íslands var öflug og vaxandi árið 2024 í samræmi við þróun fyrri ára. Í upphafi árs voru haldnir fundir með notendahópum rannsóknasamfélagsins, stjórnsýslunnar og fjölmiðla og enn fremur fundað tíu sinnum á árinu í ráðgjafanefnd um vísitölu neysluverðs og fjórum sinnum í ráðgjafanefnd um vinnumarkaðstölfræði. Þá hélt rannsóknasamstarf Hagstofunnar við æðri menntastofnanir áfram að vaxa og dafna á árinu.

 

Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri samskiptasviðs.

 
 

Miðlun

Hagstofa Íslands gefur svo til daglega út fréttatilkynningar allt árið um kring sem tengjast uppfærslum á talnaefni stofnunarinnar. Fréttatilkynningarnar eru annað hvort í formi frétta eða stuttra fréttamola en einnig í formi Hagtíðinda eða greinargerða. Í langflestum tilfellum eru fréttatilkynningar gefnar út bæði á íslensku og ensku.

Hagstofan gaf út 669 fréttatilkynningar árið 2024, þar af 339 á íslensku og 330 á ensku, og hefur útgáfum farið hægt fækkandi undanfarin ár.  Á sama tíma hefur heimsóknum á vef Hagstofunnar fjölgað og hefur vefurinn aldrei verið jafn vel sóttur og árið 2024.

Umfjöllun um efni Hagstofunnar í fjölmiðlum jókst að sama skapi á milli ára. Að meðaltali fjalla fjölmiðlar 6,3 sinnum um hverja fréttatilkynningu og uppfærslu á talnaefni sem Hagstofan birtir.

 
 
 

Samfélagsmiðlar 

Notkun samfélagsmiðla hefur verið hluti af starfsemi stofnunarinnar í nokkur ár en á árinu 2024 varð samfélagsmiðlanotkun Hagstofu Íslands markvissari og skipulagðri en áður. Umsýsla færeysku hagstofunnar var höfð að fyrirmynd og aukin notkun á verkfærum til hönnunar og myndvinnslu með áherslu á að fjölga birtingum og auka gæði efnisins sem deilt er. Hagstofan byrjaði einnig að nota Instagram sem nýjan vettvang til að ná til breiðari hóps. Þar er áhersla lögð á myndrænt efni, stutta fróðleiksmola og einfaldar skýringar á tölfræði, í takt við eðli miðilsins.

Það voru því talsverðar breytingar á viðveru Hagstofunnar á samfélagsmiðlum árið 2024. Með auknu skipulagi, fjölbreyttari miðlum og markvissari nálgun var lögð áhersla á að auka sýnileika stofnunarinnar, styrkja ímynd hennar og auka tengsl við ólíka hópa samfélagsins. Þessi grunnur býður upp á áframhaldandi þróun og ný tækifæri á komandi árum.

 
 
 

Rannsóknasamstarf

Á árinu var unnið að áframhaldandi þróun og prófun nýs rannsóknagrunns Hagstofunnar og opnað á aðgengi að gögnum hans í lok árs 2024. Meginmarkmið með uppbyggingu rannsóknagrunnsins er að bæta gæði gagna í félags-, heilbrigðis- og menntavísindum með því að veita rannsakendum öruggt aðgengi að gögnum Hagstofu Íslands. Gagnagrunnurinn er í sífelldri þróun og eru upplýsingar úr honum reglulega uppfærðar og endurskoðaðar. Þá mun breytum fjölga yfir tíma í samræmi við þarfir notenda.

Samstarf við háskólana gekk vel á árinu og tók Hagstofan á móti 2 starfsnemum frá sálfræðideild Háskóla Íslands haustið 2024, sem er nýjung, og 4 nemum í önnur verkefni. Þá hannaði Hagstofan námskeið um hagtölugerð sem hluta af verkefni sem fékk styrk úr samstarfssjóði háskólanna. Verkefnið var unnið í samvinnu við Háskólann á Bifröst, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, og hafði það að markmiði að þróa samstarf háskóla og stofnana um þekkingaruppbyggingu í atvinnuvegi menningar og skapandi á MA og doktorsstigi.