Mannauður

Stefna Hagstofu Íslands er að hún sé þekkingarmiðaður og faglegur vinnustaður. Starfsumhverfið sé hvetjandi og eflandi þar sem starfsfólk styðji hvort annað til góðra verka og nái yfirlýstum markmiðum stofnunarinnar í sameiningu.

Á Hagstofunni er lögð áhersla á að allt starfsfólk hafi jafna möguleika á að nýta hæfni sína í starfi og sé metið að verðleikum.

Frá starfsdegi Hagstofunnar.

 

Fólkið okkar

Fastráðnir starfsmenn Hagstofunnar voru 110 í árslok 2024 ásamt 32 spyrlum.

Meðalaldur fastráðins starfsfólks var um 48 ár en meðalaldur spyrla um 36 ár.

Fræðslustarfsemi

Þekkingaruppbygging og fagleg þróun starfsfólks Hagstofunnar hélt áfram að vera í forgrunni á árinu. Starfsfólk sótti sér fjölbreytta fræðslu bæði innanlands og erlendis, þar á meðal ESTP-námskeið á vegum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

Þá tók starfsfólk Hagstofunnar einnig virkan þátt í þekkingarmiðlun og samstarfi á innlendum og alþjóðlegum vettvangi sem var til þess fallin að styrkja faglega færni þess og skilaði sér í auknum gæðum í starfsemi stofnunarinnar.

Heilsueflandi vinnustaður

Hagstofan hvetur til umhverfisvænna ferðamáta og eru 41 starfsmaður með samgöngusamning við atofnunina eða 45% starfsmannafjöldans. Eins nýttu tæp 74% starfsmanna sér íþróttastyrk Hagstofunnar árið 2024.

Boðið var upp á árlegt heilsufarsmat þar sem púlsinn var tekinn á starfsfólki.

Starfræktir eru alls konar klúbbar innan Hagstofunnar sem bæta líkamlega og andlega heilsu. Meðal annars er bókaklúbbur, prjónaklúbbur, spilaklúbbur og sívaxandi hlaupaklúbbur. Eins spilar áhugasamt starfsfólk reglulega fótbolta með öðru ríkisstarfsfólki.

Hagstofan vann Ríkisbikarinn í golfi árið 2024 og fjárfesti starfsmannafélagið í kjölfarið  í golfhermi.

Á árinu var lokahönd lögð á vinnu við samskiptasáttmála starfsfólks Hagstofunnar með birtingu sáttmálans og hefur starfsfólk hann að leiðarsljósi í samskiptum.

Öflugt starfsmannafélag hélt uppi góðu félagslífi sem fyrr og stóð fyrir páskabingói, sumargrilli, árshátíð og haustferð svo eitthvað sé nefnt.

 

Heilsurækt í fyrirlestrasal Hagstofunnar.

Í aðdraganda jólahátíðarinnar.