Frá hagstofustjóra
Árið 2024 einkenndist af þróttmiklu innra starfi þar sem áfram var unnið að stafrænni umbreytingu Hagstofunnar. Lagður var grunnur að áherslum og efnistökum en umbreytingin hverfist um samræmingu gagna og innleiðingu á góðum gagnainnviðum. Unnið var að styrkingu gæðakerfis með áherslu á frekari vinnu með svokölluðum meginreglum í hagskýrslugerð í samhengi við ábyrgð og hlutverk einstakra eininga.
Unnið var að bættu framboði af hagtölum í góðu samráði við notendur en áreiðanlegar hagtölur eru grunnur að ákvarðanatöku stjórnvalda, lögaðila og einstaklinga um leið og þær styðja við þekkingaröflun og mótun nýrrar þekkingar.
Ýmsar nýjungar litu dagsins ljós á árinu og vann starfsfólk af miklum heilindum að því mikilvæga hlutverki sem Hagstofa Íslands gegnir í íslensku samfélagi. Enn fremur var norrænt og alþjóðlegt samstarf í miklum blóma. Ég kann starfsfólki miklar þakkir fyrir trúmennsku og heilindi á árinu. Eins og áður hefur hugvit þess og þrautseigja skipt sköpum.
Þá verður þeim fjölda einstaklinga, heimila, fyrirtækja og stofnana sem Hagstofan átti beint samtal við vegna gagnasöfnunar seint fullþakkað gott samstarf á árinu.
Stjórnvöld stofnuðu til samstarfs um áskoranir í hagskýrslugerð með svokallaðri hagtalnanefnd og nefndinni ætlað að koma með tillögur til úrbóta. Vonir eru bundnar við að niðurstöður nefndarstarfs styðji vel við framtíðarþróun Hagstofunnar, samfélaginu til heilla.