Skýrsla framkvæmdastjórnar
Árið 2024 vann Hagstofan áfram að þeirri framtíðarsýn að vera framsækin þekkingarmiðstöð sem þjónustar samfélagið með aðgengilegum og áreiðanlegum hagtölum. Unnið var að eflingu samráðs við notendur og gagnaveitendur, samræmingu ferla, styrkingu gagnainnviða og auknum gæðum hagtalna. Áhersla var lögð á fagmennsku, teymisvinnu og öflugt starfsumhverfi til að styðja við upplýst samfélag sem nýtir gögn til framþróunar og betri ákvarðana.
Á árinu var mótuð stefna um notkun gervigreindar í hagtölugerð. Stefnan sem miðar að því að efla nýtingu gervigreindar með ábyrgum og markvissum hætti nær bæði til þröngrar gervigreindar (vélnámsaðferða) og breiðari lausna á borð við djúptauganets og mállíkana. Megináherslur stefnunnar eru þrjár: öflugir tækni- og gagnainnviðir, þjálfun og hæfni starfsfólks og tryggt öryggi gagna og persónuvernd. Unnið verður að innleiðingu stefnunnar á næstu misserum.
Tvær viðamiklar nýjungar voru kynntar á árinu. Annars vegar var tekin upp ný og bætt aðferð við mat á íbúafjölda. Fram að því hafði íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá en ný aðferð byggir á víðtækari gögnum, svo sem skatta- og nemendagögnum auk þjóðskrár. Sú aðferð leiddi í ljós að íbúar landsins voru 15.245 færri 1. janúar 2024 en eldri aðferð gaf til kynna. Hins vegar var tekin upp ný aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu fyrir vísitölu neysluverðs, svokölluð aðferð húsaleiguígilda. Fyrri aðferðin, svonefnd aðferð einfalds notendakostnaðar, hafði gefið ágæta mynd til lengri tíma litið en reyndist viðkvæm fyrir sveiflum á fjármálamörkuðum. Með tilkomu ítarlegri gagna um leigumarkaðinn gafst tækifæri til að þróa líkan sem nær til alls íbúðarhúsnæðis í eigin notkun. Markmið líkansins er að verðbreytingar á reiknaðri húsaleigu endurspegli þróun á leigumarkaði og séu óháðar skammtímasveiflum á fjármálamarkaði.
Áfram var unnið að öflugu alþjóðlegu samstarfi og þá einkum á evrópskum vettvangi sem fullgildir meðlimir í EES-samstarfi um opinbera hagskýrslugerð. Á árinu fór fram ítarleg úttekt Eurostat á útreikningi þjóðartekna (GNI) þar sem aðferðir Hagstofunnar voru í flestum tilvikum í samræmi við ESA 2010-staðalinn. Lagðar voru fram ábendingar um atriði sem þörfnuðust skýrari rökstuðnings og úrbóta og er unnið að þeim.
Hagstofan tók einnig virkan þátt í norrænu samstarfi. Má þar nefna að á árinu var haldinn fundur sérfræðinga um mannfjöldaspár þar sem fulltrúar frá sjö löndum deildu reynslu sinni og aðferðum. Einnig tók Hagstofan á móti sérfræðingum frá hagstofu Færeyja þar sem rætt var um menntatölfræði og miðlað af íslenskri reynslu. Árlegur fundur upplýsingatæknistjóra norrænna hagstofa var haldinn hér á landi þar sem rætt var um þróun stafrænnar þjónustu og innviða.
Á árinu lauk endurhönnun á viðmóti ytri vefs Hagstofunnar. Endurhönnunin miðaði að bættri notendaupplifun og aðgengi að gögnum, m.a. með einfaldari forsíðu, skýrari aðgreiningu frétta og talnaefnis og bættri myndrænni framsetningu. Á árinu var einnig sótt fram á samfélagsmiðlum með markvissri miðlun efnis meðal annars á Instagram og Facebook.
Annað
Hagstofan í samstarf við menningar- og viðskiptaráðuneytið
Í október 2024 undirritaði Hagstofa Íslands samning við menningar- og viðskiptaráðuneytið um menningartölfræði. Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri og Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra undirrituðu samninginn en markmið samningsins er að miðlun á hagtölum um menningu og skapandi greinar verði hluti af reglubundinni starfsemi Hagstofunnar. Slíkar upplýsingar varpa ljósi á þróun greinarinnar og styðja við stefnumótun stjórnvalda.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri undirrita samninginn.
Gæði stjórnsýslugagna um fatlað fólk
Hagstofa Íslands og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið gerðu með sér samning árið 2024 um að kanna fýsileika þess að gera hagtölur um fatlað fólk með því að skoða sérstaklega gæði stjórnsýslugagna í samstarfi við haghafa. Nokkuð skortir upp á aðgengi að haldgóðum upplýsingum um fatlað fólk á Íslandi sem nýst geta stjórnvöldum og hagsmunaaðilum við stefnumörkun í málaflokknum en ekki síst til að auka sýnileika hópsins í opinberum hagtölum. Auk þess felur samningur Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk í sér skyldur stjórnvalda um upplýsingagjöf í málaflokknum. Niðurstöður úttektar leiddu í ljós ýmsa vankanta á gæðum gagna en að hægt væri að nýta þau til hagtölugerðar.
Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, og Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.
Greindu betur
Greindu betur, undankeppni evrópsku tölfræðikeppninnar hér á landi, fór fram í þriðja sinn árið 2024. Keppt var líkt og áður í tveimur flokkum, yngri flokki (9.-10. bekkur grunnskóla) og eldri flokki (1.-2. ár í framhaldsskóla).
Fyrsta sætið í yngri flokknum hlaut liðið Goðar frá Sjálandsskóla með verkefnið Tekjur á Íslandi. Í öðru sæti var liðið Ernirnir einnig frá Sjálandsskóla með verkefnið Greining á ferðamennsku hér á landi. Í þriðja sæti var liðið Nál frá Ölduselsskóla með verkefnið Fjölgun íbúa Reykjavíkur á 20. öldinni. Liðið Gæsirnar frá Verzlunarskóla Íslands bar sigur úr býtum í eldri flokknum með verkefnið Er farþegafjöldi til Íslands að aukast? Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri veitti sigurliðunum verðlaun.
Verðlaunahafar í Greindu betur 2024.
GAGNVIST 2024
Í nóvember stóð Hagstofan fyrir ráðstefnu um þróun íslenska gagnavistkerfisins í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og miðstöð stafrænnar nýsköpunar. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að leiða saman haghafa innan íslenska gagnavistkerfisins, sérstaklega þá sem safna og miðla virðisaukandi gögnum og helstu notendur þessara gagna, bæði innan stjórnsýslu og atvinnulífs. Í tengslum við ráðstefnuna fór einnig fram gagnaþon þar sem þátttakendur nýttu opinber gögn til að meta hagkvæmni og legu fyrirhugaðrar Borgarlínu. Liðið Línuleiðtogar sigraði með gagnadrifinni lausn fyrir skipulagningu Borgarlínunnar.
Hagtalnanefnd
Haustið 2024 fór af stað vinna í hagtalnanefnd sem skipuð er af forsætisráðherra í því skyni að fara yfir áskoranir í hagskýrslugerð og koma með tillögur til úrbóta. Í nefndinni sitja formaður frá forsætisráðuneyti, hagstofustjóri, varaseðlabankastjóri og skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis.